Hlutverk og þjónusta nýsköpunarstofunnar

Nýsköpunarstofa menntunar er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar.  Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Skóla- og frístundasvið (SFS) Reykjavíkurborgar fara með framkvæmd samningsins í samvinnu við ýmsa bakhjarla. Stofan er staðsett í Mýrinni, nýsköpunarsetri Vísindagarða í Grósku.  

Starfsemi stofunnar beinist einkum að eftirfarandi þáttum:

  • Styðja við nýsköpun á sviði menntunar, þróun hugmynda og aðferða sem tengjast formlegu og óformlegu námsumhverfi, hæfniþróun, nýjum leiðum í námi og kennslu, stafrænu námsumhverfi og menntun til framtíðar.
  • Leiðir saman krafta frumkvöðla úr menntakerfinu, fræðasamfélaginu og fyrirtækjum landsins.   
  • Stendur fyrir fræðslu, ráðgjöf og hröðlum á sviði nýsköpunar, menntunar, fræðslu og náms.
  • Skapar vettvang til að móta og þróa nýjar aðferðir á sviði náms og menntunar. 
  • Heldur utan um starfssamfélag og tengslanet stofnana og frumkvöðla til að prófa og meta árangur af nýjum aðferðum á sviði menntunar. 
  • Býður upp á ókeypis ráðgjöf og aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk HÍ sem vinnur að nýsköpunarhugmynd sinni.
  • Skapar vettvang til að móta og þróa nýjar aðferðir á sviði náms og menntunar. 
  • Kortlagning og miðlun nýsköpunar í íslenska menntakerfinu.

Forgangsverkefni tímabilið 2022 – 2025 er að leiða saman hóp sérfræðinga, fræðafólks, kennara og fagfólks til að greina áskoranir og vinna að nýsköpunarverkefnum tengdum þeim samfélags-, umhverfis- og tæknibreytingum sem hafa raunveruleg áhrif á menntun barna, starfsumhverfi kennara og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi.

Nýsköpunarstofa menntunar mun njóta krafta bakhjarla sem koma að stefnumótun og framkvæmd verkefna og munu skipa fulltrúa í ráðgjafahóp stofunnar. Til stendur að stofna til breiðrar samfylkingar um nýsköpun á sviði menntunar með tilstuðlan öflugra bakhjarla úr atvinnulífi, háskólum landsins, þekkingarfyrirtækjum, fagfélögum og sveitarfélögum landsins. Samfélög um allan heim eru að gera sér sífellt betri grein fyrir mikilvægi þess að styðja við rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði menntunar. Markmiðið er ekki síst að virkja hugmyndaauðgi og reynsluheim háskólanema, fagfólks, sérfræðinga og frumkvöðla til að þróa nýjar leiðir og nálganir í hinu formlega menntakerfi og á vettvangi óformlegs náms.