Samfélagslegs nýsköpun

Samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi byggir ekki eingöngu á hagnaðarvon heldur fyrst og fremst á löngun til að efla eða laga félagslegt eða samfélagslegt málefni, þar sem fjárhagslegur ágóði skiptir oft litlu máli fyrir frumkvöðulinn.

Samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi gerist yfirleitt þegar einhver stofnar fyrirtæki eða vettvang, með það fyrir augum að skapa úrræði til þess að geta uppfyllt ákveðin samfélagsleg markmið eða leyst vandamál þeim tengd. Þó að fjárhagslegur ágóði sé ekki markmiðið í sjálfu sér, þurfa þó einhverjar tekjur og eða styrkir að renna inn í fyrirtækið, til að fyrirtækið/hugmyndin sé að minnsta kosti sjálfbær, til lengri tíma litið.

Hagnaðardrifin samfélagsfyrirtæki reka atvinnustarfsemi sína á sama fjárhagslega hátt og önnur fyrirtæki en hagnaðarhugsuninni er skipt út fyrir annað markmið. Til dæmis er hægt að ráða fólk með mismunandi hamlanir, í minnihlutahópum eða öðrum jaðarhópum til starfa (og láta hagnaðinn þannig t.d. niðurgreiða aukinn launakostnað) eða að hugsanlegur ágóði renni til ákveðins samfélagslegs málefnis.

Hvað er það?*

  • Hringrásarhagkerfi er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er.
  • Hönnun og framleiðsla vöru er þannig að hún endist lengi og auðvelt er að gera við hana og endurvinna. Deiliþjónusta er nýtt og neytendur endurnota vörur. Verði vara að úrgangi tekur við skilvirk flokkun, söfnun og endurvinnsla sem heldur hráefnum í hringrás.
  • Markmiðið er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. 

Hvers vegna skiptir hringrásarhagkerfið máli?

Línulegt hagkerfi nútímans hefur ýtt undir stuttan líftíma vara og ásókn í auðlindir. Auðlindaásókn er nærri tvöfalt meiri en mögulegt er að standa undir með sjálfbærum hætti. Það leiðir til hnignunar lífríkis og neikvæðra loftslagsáhrifa. 

Með hringrásarhagkerfi má auka hagsæld og lífsgæði en um leið standa vörð um takmarkaðar  auðlindir jarðar, stuðla að sjálfbærni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hagræn áhrif og grænn hagvöxtur

Núverandi neyslumenning og línulegt hagkerfi stuðla að hagvexti í heiminum. Nauðsynlegt er að rjúfa þau tengsl, breyta venjum og ná fram sjálfbærum hagvexti.

Rannsóknir sýna að búast má við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið  og aukin landsframleiðsla. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.

Loftslagsáhrif

Betri auðlindanýting og minni úrgangsmyndun leiðir til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðir í þágu  hringrásarhagkerfisins eru þannig gjarnan loftslagsvænar um leið.

Íslensk stjórnvöld stefna á kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Hringrásarhagkerfið mun eiga stóran þátt í því.

Ný störf verða til

Með eflingu hringrásarhagkerfis má búast við að ný störf skapist í viðgerðarþjónustu og annarri þjónustu,  endurvinnslu og annarri meðhöndlun úrgangs, nýsköpun, hugviti og hönnun.

Greining á vinnumarkaðsáhrifum þess að Evrópa hverfi frá línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi leiddi í ljós að líklegt er að fleiri störf verði til en hverfi.

*Textinn um hringrásarhagkerfið er tekinn beint úr bæklingnum Hringrásarhagkerfið, sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út. Endilega kíkið á hann, þar er mikið af gagnlegum upplýsingum –  athugið hvort þið fáið einhverjar hugmyndir tengdar þessu. Bæklinginn um hringrásarhagkerfið má nálgast hér.

Hvað er sjálfbærni?*

Til eru margar skilgreiningar á sjálfbærni en í grunninn snýst sjálfbærni um að allir jarðarbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, geti mætt sínum þörfum (t.d. hreint vatn, matur, húsaskjól, menntun og heilbrigðisþjónusta) án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðar að komandi kynslóðir geti ekki mætt þörfum sínum.

Til að þetta sé í jafnvægi þurfum við að hafa þrennt í huga og gæta að þessum þáttum: félagleg þróun, efnahagsleg þróun og loftslag & umhverfi.
 

Við þurfum langtímaplan

Í raun er sjálfbært samfélag langtímaplan þar sem gert er ráð fyrir jafnvægi á milli samfélags, efnahags og náttúru. Ágangur manna á auðlindir jarðar er mikill og dregur hann úr tækifærum sem börnin á jörðinni og komandi kynslóðir geta nýtt sér í framtíðinni. 

Við þurfum að vinna heima með heiminn í huga og auka meðvitund fólks um að lífsstíll og neysluhegðun okkar hefur áhrif á kjör og aðstæður fólks annarsstaðar í heiminum.

Mikilvægt er að draga úr neyslu og stefna að sjálfbærri nýtingu auðlinda með framtíð mannkyns og lífs á jörðu að leiðarljósi.

* tekið af heimasíðu Landverndar en “Samtökin vilja vekja fólk til vitundar um neyslu svo að það endurhugsi framtíðina.” Sjá nánar um Landvernd og sjálfbærni

Hvað get ég gert?

Hvað get ég gert sem frumkvöðull? Hvað get ég lagt af mörkum til að stuðla að sjálfbærara samfélagi? Hafðu þetta í huga þegar þú ert að setja saman viðskiptahugmyndina og hanna eða framleiða eitthvað – en einnig reyndu að fá einhverja hugmynd sem getur aðstoðað aðra við þetta og lagt þannig þitt af mörkum til að tækla þetta:

 Ég get… lágmarkað úrgang

  • Þarf ég þetta, eða er þetta kannski eitthvað sem endar fljótt í ruslinu?
  • Þarf ég allar þessar umbúðir?
  • Hvað með að endurvinna?
  • Hvernig get ég gert innkaup mín umhverfisvænni?

Ég get… lágmarkað skaðlegan útblástur

  • Takmarkað orkunotkun og notað endurnýjanlega orku frekar en óendurnýjanlega
  • Hjólað, gengið eða tekið strætó í skólann
  • Verslað í nágrenni mínu

Ég get… notað hugvitið

  • Hugsað út fyrir hina hefðbundnu ramma og tekið umhverfismál með í ákvarðanatöku minni
  • Stundað rannsóknir á umhverfi og sjálfbærni og miðlað af þekkingu minni
  • Ég get stuðlað að heilbrigðri samræðu við samferðafólk um sjálfbærni og umhverfismál

Ég get… látið til mín taka

  • Ég/fyrirtæki mitt getur verið fyrirmynd í hversdagslegum athöfnum
  • Ég/fyrirtæki mitt getur beitt sér fyrir betri heimi

*https://www.hi.is/haskolinn/hvad_get_eg_gert

Rétt eins og með aðrar nýsköpunarhugmyndir, er gott er að finna raunverulega þörf, vandamál eða áskoranir til að reyna að leysa í stað þess að reyna að koma bara upp „með eitthvað nýtt“.„Vandamálin“ geta tengst þér persónulega, áhugamáli þínu eða nánasta umhverfi, samfélaginu, umhverfinu og svo framvegis.

Hægt er að reyna að laga og bæta eitthvað sem þegar er til; að endurvinna hluti, að nýta eitthvað sem þegar er til með öðrum hætti en hefur verið gert og að tengja saman einhverja hluti eða þætti sem þegar eru til og búa þannig til eitthvað nýtt.

Einhver/eitthvað þarf að geta notið góðs af hugmyndinni og þarf hún að vera framkvæmanleg. Best er að tengja áhugamál, þekkingu og reynslu við það vandamál sem þú vilt leysa. Ágætt er að spyrja sig – og svara – þessum spurningum:

  • Hvaða vandamál vilt þú leysa? Af hverju viltu leysa það?
  • Hver er hugmyndin þín og hvernig virkar hún? 
  • Hverjir geta nýtt sér hugmyndina – fyrir hverja er hún?
  • Hversu auðvelt eða erfitt er að fullklára hugmyndina? Þarftu aðstoð við hana – og þá frá hverjum?

Til að fá góða og gagnlega hugmynd sem getur bætt samfélagið getur verið gott að skoða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjá þar þau vandamál sem eru til staðar í kringum okkur.

Ert þú með einhverja hugmynd sem gæti leyst eitthvert vandamálanna?