Ertu með nýsköpunarhugmynd?

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að fara af stað með viðskiptahugmynd þarf að hafa ýmis atriði í huga. Góður undirbúningur er oft lykill að góðum árangri. Það er því mikilvægt að vinna vel með hugmyndina strax í upphafi áður en farið er af stað.

Ein eða margar hugmyndir?

Margir frumkvöðlar eru með margar hugmyndir í kollinum og oft eru þeir að vinna að mörgum hugmyndum í einu. Það er þó fátt sem mælir með því.

Að vinna að mörgum hugmyndum í einu, þýðir að bæði tíma og fjármagni er dreift á fleiri staði, áherslu er þá ekki haldið á einni hugmynd og því erfitt að gera áætlanir sem nauðsynlegt getur verið að gera.

Æskilegra er að frumkvöðlar einbeiti sér að einni hugmynd til að byrja með og leggi mat á hvort hún sé vænleg til árangurs.

Viðskiptavinirnir

Viðskiptavinir eru undirstaða hvers fyrirtækis og mikilvægasta auðlind þess. Því þurfa frumkvöðlar að greina markaðinn vel, átta sig á hugsanlegum markhópum og hverjum eigi að einbeita sér að. Í stuttu máli, hverjir munu kaupa vöruna og hvernig á að selja þeim hana:

  • Markhópurinn: Hver er markhópurinn og hversu stór er hann? Á að velja markhópin eftir kyni, aldri, staðsetningu eða öðru?
  • Kaupvenjur: Hverjar eru kaupvenjur (magn, tryggð, tilefni) helstu viðskiptavina. Hvernig mun fyrirtækið koma til móts við þær?
  • Kynningar: Hvernig á að ná til viðskiptavina? Hvernig á að markaðssetja vöruna? Á að gera það með auglýsingum, markpósti, samfélagsmiðlum, með beinni sölu og svo framvegis.
  • Dreifileiðir: Hvernig verður vörunni dreift til viðskiptavina? Með beinni sölu, í gegnum verslanir, netverslun eða í gegnum aðra milliliði? Hvernig greinir viðskiptavinurinn fyrir vöruna?

Fleiri upplýsingar um fyrstu skrefin í frumkvöðlastarfsemi má finna hér.